Liverpool skellti meisturunum og er að stinga af

Sadio Mané og Virgil van Dijk fagna þriðja marki Liverpool.
Sadio Mané og Virgil van Dijk fagna þriðja marki Liverpool. AFP

Evrópumeistarar Liverpool eru gjörsamlega óstöðvandi en liðið skellti Englandsmeisturum Manchester City á Anfield í gær 3:1 og er með átta stiga forskot á Leicester og Chelsea í toppsæti deildarinnar og er með níu stigum meira en meistararnir.

Liverpool hefur unnið 11 leiki og gert eitt jafntefli og þó svo enn sé nóvember stefnir allt í „Rauði herinn“ nái að vinna langþráðan meistaratitil en á næsta ári eru liðin 30 frá því Liverpool varð síðast meistari.

Brasilíumaðurinn Fabinho skoraði fyrsta markið á 6. mínútu með glæsilegu þrumuskoti vel fyrir utan teiginn. City vildi andartaki áður fá vítaspyrnu þegar fór í hönd Trent Alexander-Arnold innan teigs. Michael Oliver dæmdi ekki neitt og Liverpool brunaði upp völlinn sem endaði með marki Fabinho. Mohamed Salah tvöfaldaði forskot Liverpool sjö mínútum síðar þegar hann skoraði með skalla eftir frábæra fyrirgjöf Andrew Robertson. Sadio Mané gerði svo endanlega út um leikinn á 51. mínútu þegar hann skoraði með skalla eftir sendingu frá Jordan Henderson. Eftir markið stigu leikmenn Liverpool af bensíngjöfinni og Bernardo Silva minnkaði muninn fyrir meistarana en nær komust þeir ekki og það var gríðarlegur fögnuður þegar Oliver flautaði leikinn af.

Leicester-liðið skemmtilegt

Leicester-menn, undir stjórn Brendan Rodgers, eru líka frábærir skemmtikraftar eins og Liverpool en Leicester vann sannfærandi 2:0-sigur á Arsenal á King Power-vellinum. Það kom varla neinum á óvart að Jamie Vardy skyldi skora fyrir Leicester en hann hefur nú skorað níu mörk í níu leikjum sem hann hefur verið í byrjunarliði Leicester á móti Arsenal. Vardy kom Leicester yfir á 68. mínútu og besti maður vallarins, James Maddison, bætti við öðru marki sjö mínútum síðar.

Sjá greinina í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert