Silva þarf alltaf að nota Gylfa (myndskeið)

Eftir að hafa byrjað á varamannabekk Everton í síðustu fjórum leikjum kom Gylfi Þór Sigurðsson inn í byrjunarlið Everton í 2:1 útisigri liðsins gegn Southampton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardaginn.

Gylfi Þór bar fyrirliðabandið og lék allan tímann en hann skilaði fínum leik og átti þátt í fyrra marki sinna manna.

Tómas Þór Þórðarson ræddi um stöðu Gylfa og Everton-liðsins við þá Bjarna Þór Viðarsson og Gylfa Einarsson í þættinum Völlurinn á Síminn Sport.

„Ég vil hafa hann alltaf inni á vellinum og ég vil að hann taki allar hornspyrnur og allar aukaspyrnur sem eru nálægt markinu. Það eru fáir betri spyrnumenn en hann í deildinni. Hann hefur sýnt það trekk í trekk,“ sagði Gylfi.

„Það er aldrei neitt vesen andlega hjá Gylfa en þegar hlutirnir ganga ekki alveg upp þá minnkar sjálfstraustið. Ég held að verði gott fyrir hann að fara í landsleikjahlé og svo er komið að leik á móti Norwich á heimavelli sem Everton verður að vinna. Silva þarf alltaf að nota Gylfa,“ sagði Bjarni Þór en allt spjall þeirra Tómasar, Gylfa og Bjarna má sjá í meðfylgjandi myndskeiði.

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert