„Fjölskylduerjur“ hjá Sterling og Gomez

Joe Gomez og Raheem Sterling á æfingu í dag.
Joe Gomez og Raheem Sterling á æfingu í dag. AFP

Gareth Southgate, þjálfari enska karlalandsliðsins í fótbolta, líkir ágreiningi Joe Gomez og Raheem Sterling á æfingu enska liðsins í gær við fjölskylduerjur. Segir hann alla í landsliðinu vera á sömu braut. 

Sterling tók illa í brandara á æfingasvæði landsliðsins og veittist að Gomez í kjölfarið með þeim afleiðingum að sá á andliti Gomez. Að sögn breskra miðla tók Sterling, sem leikur með Manchester City, Gomez hálstaki. Gomez leikur með Liverpool og lenti þeim saman í leik City og Liverpool á sunnudag. 

Sterling verður ekki með enska liðinu gegn Svartfjallalandi á fimmtudag, en hann hefur beðist afsökunar á framferði sínu. Southgate gerði lítið úr málinu á blaðamannafundi í dag. 

„Við höfum ákveðið að Raheem verði ekki með á fimmtudag og þar með er málinu lokið. Við höldum áfram og við erum allir á sömu braut. Ég er mjög sáttur með hvernig leikmennirnir brugðust við þessu. Við erum eins og fjölskylda og það geta alltaf komið upp fjölskylduerjur,“ sagði Southgate. 

Sterling var fyrst um sinn sendur heim úr æfingabúðum enska liðsins, en eftir liðsfund, var tekin ákvörðun um að Sterling fengi að snúa aftur í hópinn. 

mbl.is