Gefur VAR 7 af 10 mögulegum

VAR hefur verið áberandi í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.
VAR hefur verið áberandi í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni. AFP

Neil Swarbrick, maðurinn sem sér um VAR í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, er ánægður með notkun tækninnar til þessa í deildinni, þrátt fyrir að æ fleiri séu orðnir þreyttir á óstöðugleika og vitlausum ákvörðunum. 

Gefur Swarbrick notkun VAR í ensku úrvalsdeildinni til þessa 7 af 10 mögulegum og segir tæknina vera á nákvæmlega þeim stað sem hann reiknaði með á þessum tímapunkti á leiktíðinni.

Í hverri umferð virðist koma upp ný vafaatriði og um síðustu helgi voru leikmenn og þjálfarar Manchester City pirraðir yfir að fá ekki vítaspyrnu er boltinn fór í höndina á Trent Alexander-Arnold, leikmanni Liverpool, er liðin mættust í stórleik á sunnudag. 

Þá var mark dæmt af Sheffield United þar sem stóra táin á leikmanni liðsins var í rangstöðu gegn Tottenham og á dögunum var mark dæmt af Liverpool þar sem handakrikinn á Roberto Firmino var í rangstöðu. Þrátt fyrir öll vafaatriðin er Swarbrick ánægður. 

„Ég er mjög ánægður með þessa byrjun á VAR. Ég myndi gefa þessu 7 af 10. Það eru fleiri ákvarðanir réttar en rangar með VAR. Eftir tvö ár vil ég að einkunnin verði komin upp í 8,5 eða 9,“ sagði Swarbrick við BBC. 

„Þetta er enn í þróun og við hlustum á gagnrýnina. Ég fékk mikla gagnrýni þegar ég var dómari og það er ekkert nýtt fyrir okkur dómara að vera gagnrýndir,“ bætti hann við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert