Milljarða þrot eftir West Ham-ævintýrið

Björgólfur Guðmundsson var eigandi Hansa ehf. sem átti knattspyrnufélagið West …
Björgólfur Guðmundsson var eigandi Hansa ehf. sem átti knattspyrnufélagið West Ham. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Lýstar kröfur í þrotabú Hansa ehf., fjárfestingafélags sem var í eigu Björgólfs Guðmundssonar og hélt fyrst og fremst utan um eignarhluta í enska knattspyrnufélaginu West Ham, námu samtals 26,8 milljörðum. Þetta kemur fram í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu þar sem greint er frá skiptalokunum, en félagið var úrskurðað gjaldþrota árið 2011. Engar eignir fundust í búinu og var því ekki tekin afstaða til fjárhæða lýstra krafna.

Stærsti kröfuhafinn í búið var ALMC, eignarumsýslufélag um það sem áður var Straumur-Burðarás. Aðrir kröfuhafar voru Eignarhaldsfélagið Grettir, en það var fjárfestingafélag í eigu Björgólfs, og Byr.

Helgi Birgisson, skiptastjóri búsins, segir í samtali við mbl.is að ALMC hafi leyst til sín aðaleign félagsins, knattspyrnufélagið West Ham, áður en til skiptanna kom. Hann segir að setja verði fyrirvara við fjárhæðir sem komi fram í lýstum kröfum þar sem engin afstaða hafi verið tekin til þeirra. Þetta eigi meðal annars við um kröfu ALMC, sem var langstærsti kröfuhafinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert