„Næstum ómögulegt“

Jürgen Kopp brosir breitt þessa dagana.
Jürgen Kopp brosir breitt þessa dagana. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool er meira en ánægður með stigasöfnun sinna manna en eftir tólf umferðir er Liverpool með 34 stig og er með átta stiga forskot á næstu lið sem eru Leicester og Chelsea.

„Þetta er bara byrjunin á tímabilinu. Það vita það allir. Ef þú hefðir sagt mér að þú gætir verið með 34 stig á þessum tímapunkti, vá það er næstum því ómögulegur árangur en við höfðum gert þetta. Nú eru strákarnir í síðasta landsliðsverkefni sínu á þessu ári og vonandi koma þeir allir heilir til baka og svo mætum við Crystal Palace,“ segir Klopp á heimasíðu Liverpool.

Liverpool hefur unnið 11 af 12 leikjum sínum í deildinni en einu töpuðu stigin komu í 1:1 jafntefli á móti erkifjendunum í Manchester United. Á síðustu leiktíð tapaði Liverpool aðeins einum leik í deildinni og endaði með 97 stig. Það dugði ekki til því Manchester City fékk 98 stig og vann Englandsmeistaratitilinn annað árið í röð þrátt fyrir að tapa fjórum leikjum.

Næsti mánuður verður strembinn fyrir Klopp og lærisveina hans en þá verða þeir í eldlínunni á fernum vígstöðvum, úrvalsdeildinni, heimsmeistarakeppni félagsliða, Meistaradeildinni og í ensku deildabikarkeppninni.

mbl.is