Wenger snýr aftur í fótboltann

Arsene Wenger er orðinn starfsmaður FIFA.
Arsene Wenger er orðinn starfsmaður FIFA. AFP

Knattspyrnustjórinn Arsene Wenger samþykkti í dag að verða yfirmaður þróunarsviðs FIFA. Wenger var fyrst orðaður við starfið fyrir tveimur mánuðum síðan, en hann hefur undanfarið verið orðaður við stjórastarfið hjá Bayern München.

Wenger tekur við starfinu af Marco van Basten sem starfaði hjá FIFA þar til í október á síðasta ári. 

„Ég hlakka mikið til að taka við þessu mikilvæga starfi. Ég trúi því að hið nýja FIFA sem sprottið hefur upp á síðustu árum hafi íþróttina sjálfa að leiðarljósi og vilji þróa leikinn áfram. Ég veit ég get lagt mitt af mörkum,“ sagði Wenger við ráðninguna. 

Wenger hefur unnið sem sparkspekingur í sjónvarpi síðan hann yfirgaf Arsenal á síðasta ári eftir 22 ár sem knattspyrnustjóri liðsins. 

mbl.is