Óvíst hvenær Salah snýr aftur

Mo Salah er að glíma við ökklameiðsli.
Mo Salah er að glíma við ökklameiðsli. AFP

Óvíst er hvenær egypski knattspyrnumaðurinn Mo Salah snýr aftur á völlinn. Salah verður ekki með landsliði Egyptalands sem mætir Keníu og Kó­mor­eyj­um í undankeppni Afríkukeppninnar í vikunni.

Salah fór meiddur af velli er Liverpool vann 3:1-sigur á Manchester City síðasta sunnudag og hefur hann verið að glíma við ökklameiðsli í gegnum tímabilið. Sky greinir frá því Liverpool muni gefa Salah nokkra daga í frí eftir landsleikjahléið til að jafna sig.

Salah er búinn að skora níu mörk í sautján leikjum með Liverpool á leiktíðinni. Næsti leikur Liverpool er á útivelli gegn Crystal Palace sunnudaginn 23. nóvember og fjórum dögum síðar mætir liðið Napoli á heimavelli í Meistaradeildinni og er óvíst hvort Salah verði leikfær.

mbl.is