Guardiola vill varnarmenn Leicester City

Caglar Soyuncu í baráttunni við Mesut Özil.
Caglar Soyuncu í baráttunni við Mesut Özil. AFP

Varnarmenn Leicester City, Jonny Evans og Caglar Soyuncu, eru sagðir á óskalista Pep Guardiola, knattspyrnustjóra Manchester City, nú þegar félagaskiptaglugginn opnar í janúar. Frá þessu greinir Sky Sports.

Manchester City hefur verið í miklum vandræðum með miðvarðarstöðuna það sem af er tímabili í ensku úrvalsdeildinni. Meiðsli Aymeric Laporte fyrr í vetur hafa orðið þess valdandi Guardiola hefur þurft að notast við miðjumenn, þar á meðal Fernandinho, í vörninni.

Guardiola hefur áður sagt að hann hyggist ekki kaupa miðvörð í janúar, en eftir afar dræma stigasöfnun á þessu tímabili er talið næsta víst að honum hafi snúist hugur. Manchester City hefur áður reynt að næla í Evans, þá leikmann WBA árið 2017, en öllum tilboðum félagsins var hafnað.

Manchester City situr nú í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 25 stig eftir 12 leiki. Næsti leikur liðsins er eftir rúma viku þegar liðið fær Chelsea í heimsókn.

mbl.is