Joe gerði ekkert af sér

Joe Gomez og Raheem Sterling á landsliðsæfingu eftir að þeir …
Joe Gomez og Raheem Sterling á landsliðsæfingu eftir að þeir höfðu náð sáttum. AFP

Raheem Sterling, leikmaður Manchester City og enska landsliðsins í knattspyrnu, kom Joe Gomez, leikmanni Liverpool, til varnar í kvöld í kjölfarið á því að sumir áhorfendur á leik Englands og Svartfjallalands í undankeppni EM á Wembley bauluðu á Gomez þegar hann kom inn á sem varamaður.

Sterling var settur út úr enska landsliðshópnum fyrir leikinn í kvöld vegna uppákomu á landsliðsæfingu á mánudaginn. Hann tók þá Gomez hálstaki þannig að sá á Liverpool-leikmanninum en þeim hafði lent saman í toppslag liða sinna deginum áður.

Sterling klappaði fyrir Gomez þegar honum var skipt inn á í kvöld og hann skrifaði síðan á Twitter:

„Joe gerði ekkert af sér og það var  í mínum augum mjög rangt að baula á leikmann sem hefur lagt mjög hart að sér þegar honum var skipt inn á í leiknum í kvöld.“

England vann leikinn með yfirburðum, 7:0, og tryggði sér með því sæti í lokakeppni EM 2020. Þetta var þúsundasti landsleikur Englendinga í karlaflokki frá upphafi.

mbl.is