Rýfur Liverpool 90% múrinn?

Ber er hver að baki … Liverpool-keðjan er vel smurð …
Ber er hver að baki … Liverpool-keðjan er vel smurð og þétt um þessar mundir. AFP

Verður Liverpool fyrsta liðið frá 1889 til að leysa til sín yfir 90% stiga í ensku úrvalsdeildinni? Til þess þarf liðið að fá 103 stig á yfirstandandi leiktíð. 

Liverpool hefur rokið upp úr rásblokkunum á þessari leiktíð í ensku knattspyrnunni og er með átta stiga forskot á næstu lið að tólf leikjum leiknum. Auðvitað er langt í land en margir sparkskýrendur, innanlands og utan, eru eigi að síður þegar farnir að spá liðinu meistaratitlinum; þeim fyrsta í slétta þrjá áratugi.

Ekki nóg með það. Menn velta einnig fyrir sér hvort þeir Kloppungar séu þess umkomnir að slá stigametið í Englandi, 100 stig, sem Manchester City setti veturinn 2017 — '18. Það eru 88% stigaheimtur og bæði City, 98 stig, og Liverpool, 97 stig, hjuggu nærri því á síðustu leiktíð. Það er í raun besti árangur Liverpool í sögunni, 85% stigaheimtur, sem er mergjuð staðreynd í ljósi þess að liðið vann ekki deildina. En síðasta leiktíð var að sönnu afbrigðileg á Englandi.

Raunar þarf að fara aftur til fyrstu leiktíðarinnar á Englandi, 1888 — '89, til að finna lið sem fékk yfir 90% stiga. Preston North End hlaut þá 40 stig af 44 mögulegum. Þá voru leikirnir aðeins 22. Preston fór líka taplaust gegnum mótið, afrek sem aðeins Arsenal hefur leikið eftir, veturinn 2003 — '04. Liverpool er enn þá án ósigurs í vetur og getur fyrir vikið slegist í þann elítuhóp.

Átján sinnum hefur Liverpool orðið enskur meistari, mest með 81% stigaheimtum, þegar liðið fékk 68 stig í 42 leikjum veturinn 1978-79. Þá voru aðeins gefin tvö stig fyrir sigur. Hefðu menn splæst þremur stigum á sigur á þeim tíma hefði Liverpool fengið 98 stig, einu meira en á liðinni leiktíð en höfum í huga að það lið lék fjórum leikjum meira en liðið í fyrra. Minnst fékk meistaralið Liverpool 63% stiga veturinn 1983 — '84.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert