„Getur orðið einn besti stjórinn í heimi“

Frank Lampard.
Frank Lampard. AFP

Eden Hazard, sem yfirgaf Chelsea í sumar og gekk í raðir Real Madrid, telur að Frank Lampard geti orðið einn af bestu knattspyrnustjórum í heimi.

Lampard tók við stjórastarfinu hjá Chelsea fyrir tímabilið og hefur gert það svo sannarlega gott með Lundúnaliðið. Það er í 2.-3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir sex sigurleiki í röð.

Spurður hvort hann sé hissa á góðu gengi Chelsea undir stjórn Lampards sagði Hazard;

„Nei alls ekki. Ég þekki Frank sem leikmann en ekki sem stjóra en hann er frábær náungi. Hann hefur þegar sýnt það eftir fjóra mánuði að hann getur orðið einn besti stjórinn í heimi.

Það góða við Chelsea-liðið er að það er spila með marga unga leikmenn, enska leikmenn. Það er gott fyrir England og það það er gott fyrir Chelsea. Það er heppið að hafa unga hæfileikaríka leikmenn í liði sínu,“ sagði Hazard við fréttamenn en hann verður í eldlínunni með Belgum þegar þeir taka á móti Kýpur í undankeppni EM annað kvöld en Belgar hafa unnið alla níu leiki sína.

mbl.is