Paris SG með Lallana í sigtinu

Adam Lallana með Jürgen Klopp.
Adam Lallana með Jürgen Klopp. AFP

Enskir og franskir fjölmiðlar greina frá því að franska meistaraliðið Paris SG vilji fá Adam Lallana til liðs við sig þegar opnað verður fyrir félagaskipti í janúar.

Lallana, sem er 31 árs gamall, hefur ekki náð að festa sig í sessi hjá Liverpool undir stjórn Jürgens Klopp en samningur hans við félagið rennur út eftir tímabilið.

Lallana gekk í raðir Liverpool frá Southampton fyrir fimm árum. Hann hefur verið óheppinn með meiðsli á þessum tíma en Lallana hefur spilað samtals 118 leiki með Liverpool í deildinni og hefur í þeim skorað 18 mörk. Á þessu tímabili hefur hann komið við sögu í fimm leikjum í deildinni og skorað eitt mark sem hann gerði í 1:1 jafntefli á móti Manchester United.

mbl.is