„Mun sjúga lífið, sálina og gleðina úr liðinu“

José Mourinho og Mauricio Pochettino.
José Mourinho og Mauricio Pochettino. AFP

Það eru ekki allir sáttir við ráðningu José Mourinho í starf knattspyrnustjóra enska úrvalsdeildarliðsins Tottenham en Portúgalinn var í morgun kynntur til leiks sem nýr stjóri Lundúnaliðsins í stað Argentínumannsins Mauricio Pochett­ino.

„Það er brjálæði hjá Tottenham að ráða José Mourinho. Hann mun sjúga lífið, sálina og gleðina úr liðinu og eyða öllu því sem Mauricio Pochettino hefur byggt upp,“ segir Ian Herbert, blaðamaður hjá enska blaðinu Daily Mail.

Jamie Redknapp, fyrrverandi miðjumaður Tottenham og nú sparkspekingur hjá Sky Sports segir að Mourinho gæti lent upp á kant við hinn sparsama hæstráðanda hjá Tottenham, Daniel Levy.

„Ef hann er rétti maðurinn fyrir Tottenham. Það er áhugavert því Mourinho vill eyða peningum en Daniel ekki. José vill fá stór nöfn til að byggja liðið upp og bæta það. Honum líkar vel við reynslumikla leikmenn og er ekki mikið að tefla fram ungum leikmönnum. En það er ekki hægt að deila um það hvað hann hefur afrekað á ferli sínum,“ segir Redknapp.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert