Fékk 50 skilaboð frá Manchester United

José Mourinho var hress á fréttamannafundinum í dag.
José Mourinho var hress á fréttamannafundinum í dag. Ljósmynd/Twitter-síða Tottenham

José Mourinho, nýráðinn knattspyrnustjóri Tottenham, sat fyrir svörum fréttamanna í dag en Portúgalinn stýrir Tottenham-liðinu í fyrsta sinn á laugardaginn þegar það heimsækir West Ham í ensku úrvalsdeildinni.

Mourinho sagði á fundinum að hann hafi fengið stuðning frá mörgum kollegum sínum og hann segist hafa fengið mörg skilaboð frá Manchester United en tæpt ár er liðið frá því hann var rekinn frá félaginu.

„Ég fékk 50 skilaboð frá fólki í Manchester United í gær. Þau komu frá nokkrum leikmönnum, þjálfurum og frá öðrum sem eru með mismunandi hlutverk hjá félaginu. Þetta hefur mikla þýðingu fyrir mig,“ sagði Mourinho.

Mourinho hefur verk að vinna hjá Tottenham en liðið situr í 14. sæti deildarinnar eftir tólf umferðir.

„Við getum ekki unnið titilinn á þessu tímabili. Ég segi ekki að við vinnum á næsta ári en við getum gert það.“

mbl.is