Solskjær hefur ekki áhyggjur af Pochettino

Ole Gunnar Solskjær
Ole Gunnar Solskjær AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, segir ekki meiri pressu á sér nú þegar Mauricio Pochettino sé atvinnulaus. Pochettino, sem var rekinn frá Tottenham í vikunni, hefur verið orðaður við stjórastarfið hjá United. 

„Það angrar mig ekki. Ég er í besta starfi í heimi og ég er viss um að hvort sem þú ert í starfi eða ekki og ert stjóri, hefur þú áhuga á starfinu.

Ég einbeiti mér bara að minni vinnu og að koma liðinu áfram. Það breytist ekkert þótt önnur félög skipta um stjóra,“ sagði Solskjær á blaðamannafundi í dag. 

Solskjær er spenntur fyrir endurkomu José Mourinho í enska boltann, en hann tók við Tottenham af Pochettino. 

„Það er gott að José sé kominn aftur. Sérstaklega fyrir fjölmiðlamenn. Það er hins vegar leiðinlegt að Mauricio hafi misst vinnuna, sérstaklega þegar það er svona stutt í jólin. Ég óska honum alls hins besta,“ sagði Solskjær. 

mbl.is