Léku eftir afrek Giggs, Scholes og Beckham

Mason Greenwood (t.v.) og Brandon Williams (t.h.) fagna marki þess …
Mason Greenwood (t.v.) og Brandon Williams (t.h.) fagna marki þess fyrrnefnda í enska deildabikarnum fyrr í vetur. Þeir eru aðeins 18 og 19 ára gamlir. AFP

Það voru ungu leikmenn Manchester United sem björguðu liðinu frá því að tapa gegn nýliðum Sheffield United á Bramall Lane í fjörugu 3:3-jafntefli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Heimamenn í Sheffield náðu tveggja marka forystu áður en Brandon Williams, 19 ára, minnkaði muninn og Mason Greenwood, 18 ára, jafnaði metin. Það var svo Marcus Rashford sem kom United í forystu en hann er 22 ára gamall. Heimamenn áttu eftir að næla í jafntefli með marki seint í leiknum en ungu leikmenn United gerðu eitthvað sem ekki hefur gerst í efstu deild á Englandi í rúma tvo áratugi.

Þetta var í fyrsta sinn í 23 ár eða síðan 1996 að þrír leikmenn, 22 ára eða yngri, skora í einum og sama úrvalsdeildarleiknum en það gerðu Manchester United goðsagnirnar Ryan Giggs, Paul Scholes og David Beckham í leik gegn Nottingham Forest í apríl það árið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert