Áhyggjufullir Liverpool-menn

Roberto Firmino sækir að marki Napoli í gærkvöld.
Roberto Firmino sækir að marki Napoli í gærkvöld. AFP

Liverpool-menn eru áhyggjufullir vegna meiðsla brasilíska miðjumannsins Fabinho.

Fabinho varð fyrir meiðslum á ökkla í leiknum gegn Napoli í Meistaradeildinni í gær og þurfti að fara af velli eftir 19 mínútna leik. Hann sást yfirgefa Anfield-leikvanginn með umbúðir en ekki liggur ljóst fyrir hversu alvarleg meiðslin eru. Brasilíumaðurinn, sem er í lykilhlutverki í miðjuspili Evrópumeistaranna, fer í myndatöku í dag eða á morgun.

Stuðningsmenn Liverpool hafa miklar áhyggjur af Fabinho. Einn þeirra skrifaði á Twitter-síðu sína: „Þetta gæti verið mikið. Við höfum engan sem gerir það sem hann gerir.“ Og annar skrifaði: „Desember á eftir að verða strembinn.“

Eftir jafnteflið á móti Napoli í gær verður Liverpool í það minnsta að fá stig gegn Salzburg á útivelli til að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert