Skoraði sex og lagði upp fjögur í einum leik

Vivianne Miedema skoraði sex og lagði upp fjögur í dag.
Vivianne Miedema skoraði sex og lagði upp fjögur í dag. AFP

Hollenska knattspyrnukonan Vivianne Miedema gerði sér lítið fyrir og skoraði sex mörk og lagði upp fjögur til viðbótar er Arsenal vann 11:1-sigur á Brstiol City á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í dag. 

Miedema lagði upp fyrstu tvö mörkin, skoraði næstu fjögur sjálf, lagði upp sjöunda og áttunda markið og skoraði svo níunda markið, áður en hún fór af velli á 70. mínútu. 

Fyrir leikinn hafði Miedema skorað þrjú mörk í sjö leikjum í deildinni, en hún sprakk heldur betur út í dag. Miedema var lykilmaður í hollenska landsliðinu sem lék til úrslita á HM í Frakklandi í sumar. 

Arsenal er í toppsæti deildarinnar með 21 stig, eins og Manchester City. Chelsea kemur þar á eftir með 19 stig og leik til góða. 

mbl.is