Bíður hann eftir hringingu frá Old Trafford?

Mauricio Pochettino verður væntanlega ekki lengi atvinnulaus.
Mauricio Pochettino verður væntanlega ekki lengi atvinnulaus. AFP

Mauricio Pochettino, sem var sagt upp störfum sem knattspyrnustjóra Tottenham Hotspur í síðasta mánuði, verður ekki lengi atvinnulaus ef marka má vangaveltur fjölmiðla víðs vegar um Evrópu.

Arsenal er með Freddie Ljungberg sem bráðabirgðastjóra, Bayern München er nýbúið að reka Nico Kovacs, Zinedine Zidane er talinn valtur í sessi hjá Real Madrid og hjá Manchester United gengur Ole Gunnar Solskjær hægt að koma gamla risanum aftur á sigurbraut.

Pochettino hefur verið þrálátlega orðaður við Manchester United og þær raddir eru háværari eftir enn einn vonbrigðaleik liðsins sem gerði jafntefli, 2:2, við Aston Villa á heimavelli í gær.

Jermaine Jenas, fyrrverandi leikmaður Tottenham og enska landsliðsins, sem nú er sérfræðingur hjá sjónvarpsstöðinni BT Sport, ráðleggur Argentínumanninum að taka því rólega næstu mánuðina og alls ekki taka tilboði frá Arsenal.

„Arsenal er stórt félag og ég er viss um að Mauricio fengi há laun þar. En ég myndi segja að staða hans sé mun betri en það. Ég tel að sá árangur sem hann nái með Tottenham lyfti honum í annan gæðaflokk. Ef ég væri í hans sporum myndi ég taka mér sex mánaða frí til að endurhlaða batteríin eftir að hafa unnið samfleytt í sex ár.

Undir lok tímabilsins eru afar góðar líkur á því að það kæmi símhringing frá Manchester United, eða frá Bayern München eða Real Madrid,“ sagði Jenas.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert