Setur pressu í hvert sinn sem hann klæðist búningnum

Jack Grealish á fullri ferð í leiknum á Old Trafford …
Jack Grealish á fullri ferð í leiknum á Old Trafford í gær. AFP

Dean Smith, knattspyrnustjóri Aston Villa, telur að miðjumaðurinn Jack Grealish sé farinn að þrýsta verulega á um sæti í enska landsliðinu eftir frammistöðu sína með liðinu undanfarið.

Grealish skoraði glæsilegt mark á Old Trafford í gær þegar hann kom Villa í 1:0 í jafnteflisleik liðanna, 2:2, og var óheppinn að koma Villa ekki yfir í seinni hálfleiknum þegar hann nýtti ekki dauðafæri.

„Hann veit betur en aðrir að í níu skipti af tíu hefði hann skorað úr þessu færi. Ég er ánægður með markið hans og frammistöðuna en ég veit að Jack á ekki eftir að sofa vel í nótt eftir að hafa klúðrað þessu færi. En hann setur pressu á þá  sem velja enska landsliðið í hvert skipti sem hann klæðist búningi Aston Villa. Þegar hann kom þá var ljóst að hann þyrfti að fjölga mörkum og stoðsendingum og það hefur hann gert að undanförnu og hann stjórnaði leiknum í fyrri hálfleik,“ sagði Smith við BBC í gær.

Grealish er 24 ára gamall og hefur verið í röðum Villa frá sex ára aldri, að undanskildu tímabilinu 2013 — '14 þegar hann var í láni hjá Notts County. Grealish er ættaður frá Írlandi og lék með yngri landsliðum Íra, upp í 21-árs landslið, en valdi England árið 2016 og hóf að leika með 21-árs liði Englendinga. Hann var í mjög stóru hlutverki síðasta vetur þegar Aston Villa tryggði sér sæti í úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert