Ég vil enga leikmenn í janúar

David Silva fer frá Manchester City í vor og Pep …
David Silva fer frá Manchester City í vor og Pep Guardiola hyggst fá leikmann fyrir hann næsta sumar. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Manchester City, kveðst ekki þurfa að styrkja lið sitt þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður í janúar þrátt fyrir að liðinu hafi gengið illa í síðustu leikjum og það sé nú ellefu stigum á eftir toppliði Liverpool í úrvalsdeildinni.

„Ég vil enga leikmenn í janúar. Það getur gerst stöku sinnum að einstakt tækifæri gefist til að kaupa leikmann í janúar en yfirleitt er það þannig að þeir leikmenn sem okkur þykja áhugaverðir fyrir okkar hóp eru ekki til sölu í janúarmánuði," sagði Guardiola í viðtali við The Guardian.

Vincent Kompany hætti í vor, David Silva hverfur á braut eftir þetta tímabil og óvíst er hvað Fernandinho gerir en Guardiola telur enga þörf á að kaupa marga leikmenn.

„Það er ekki endurbygging að ná í þrjá leikmenn. Í endurbyggingu eru sjö eða átta menn keyptir, eins og við gerðum á öðru ári mínu þegar sjö leikmenn voru með útrunninn samning og við vorum með ellefu leikmenn yfir þrítugt. Þegar keyptir eru tveir eða þrír menn er bara verið að fylla í skörðin,“ sagði Spánverjinn.

mbl.is