England mætir andstæðingum Íslands

Enska landsliðið mætir Rúmeníu.
Enska landsliðið mætir Rúmeníu. AFP

Enska karlalandsliðið í knattspyrnu leikur vináttuleiki við Rúmeníu og Austurríki í undirbúningi sínum fyrir EM á næsta ári. England mætir Austurríki á útivelli 2. júní og fimm dögum síðar mætast England og Rúmenía á Englandi, en ekki er búið að ákveða leikstað.

Ísland mætir einmitt Rúmeníu í undanúrslitum umspilsins um sæti í lokakeppni EM 26. mars á Laugardalsvelli. Rúmenar verða því vonandi ekki að undirbúa sig fyrir lokamótið er liðið mætir Englandi.

England hafði áður tilkynnt vináttuleik við Dani 31. mars. England er í riðli með Króatíu og Tékklandi á EM og svo Skotlandi, Noregi, Serbíu eða Ísrael, sem mætast í umspili.

mbl.is