Liverpool gæti keypt leikmenn í janúar

Jürgen Klopp og Virgil van Dijk.
Jürgen Klopp og Virgil van Dijk. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er opinn fyrir því að kaupa leikmenn í janúarglugganum. Pep Guardiola, kollegi hans hjá Manchester City, ætlar hins vegar ekki að styrkja liðið í næsta mánuði. 

„Ég er ekki hérna til að tala um félagsskiptagluggann hjá Manchester City,“ svaraði Klopp er hann var spurður út í ummæli Guardiola um að City ætli ekki að styrkja sig í janúar. „Ég er að heyra þetta fyrst núna og þetta kemur ekki á óvart,“ bætti hann við, en hann sat fyrir svörum blaðamanna í dag.

„Við höfum ekki rætt janúargluggann enn þá en við erum alltaf tilbúnir ef við getum gert eitthvað sem kemur til með að hjálpa okkur. Ef ekkert stendur til boða, þá kaupum við ekki bara til að kaupa.“

Liverpool keypti Virgil van Dijk í síðasta janúarglugga fyrir 75 milljónir punda og hafnaði  hann í öðru sæti í baráttunni um Gullknöttinn í gærkvöldi. Lionel Messi stóð uppi sem sigurvegari í sjötta skipti.

„Ég hef sagt það 500.000 sinnum að Messi er besti leikmaður sem ég hef séð á ævinni. Ég man hins vegar ekki eftir varnarmanni sem spilaði eins vel og Virgil van Dijk. Mér skilst að hann hafi verið nálægt því að vinna,“ sagði Þjóðverjinn. 

mbl.is