Meistararnir í heimsókn hjá Jóhanni

Kevin De Bruyne fagnar glæsilegu marki fyrir Manchester City gegn …
Kevin De Bruyne fagnar glæsilegu marki fyrir Manchester City gegn Newcastle um síðustu helgi. Í kvöld sækir lið hans Burnley heim. AFP

Þessa dagana er leikið þétt í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu því fjórtándu umferðinni lauk á sunnudaginn og sú fimmtánda hefst strax í kvöld. 

Englandsmeistarar Manchester City sækja heim Burnley, lið Jóhanns Bergs Guðmundssonar, en viðureign liðanna hefst klukkan 20.15 á Turf Moor. Jóhann hefur misst af síðustu sex leikjum Burnley vegna meiðsla og aðeins náð að spila fjóra af fyrstu fjórtán leikjum liðsins í deildinni í vetur. Burnley er í 10. sæti deildarinnar með 18 stig en gæti komist í fimmta sætið með sigri. City er með 29 stig í þriðja sæti og færi upp fyrir Leicester og í annað sætið með sigri, alla vega tímabundið.

Fyrri leikur kvöldsins fer fram á Selhurst Park í London þar sem Crystal Palace tekur á móti Bournemouth. Palace er með 18 stig í 11. sætinu og Bournemouth 16 stig í 12. sætinu þannig að sigurlið kvöldsins  verður væntanlega í efri helmingi deildarinnar eftir þessa umferð.

mbl.is