Þetta er lygi

Ole Gunnar Solskjær mætir forvera sínum José Mourinho annað kvöld …
Ole Gunnar Solskjær mætir forvera sínum José Mourinho annað kvöld þegar United leikur gegn Tottenham. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, brást hart við í byrjun fréttamannafundar síns á Old Trafford fyrir stundu vegna fréttar sem birtist í götublaðinu The Sun í morgun.

Þar var sagt að Solskjær hefði sagt við leikmenn sína að hann verði rekinn ef liðið tapar bæði gegn Tottenham annað kvöld og gegn Manchester City á laugardaginn.

„Stundum getur maður ekki annað en hlegið við það að lesa það sem maður á að hafa sagt. Ég veit í það minnsta að þetta er tómur skáldskapur. Hreinasta lygi!“ sagði Solskjær.

Um stöðuna á liði United sem hefur aðeins unnið fjóra af fyrstu fjórtán leikjum sínum í deildinni sagði Norðmaðurinn: „Við höfum gert of mikið af jafnteflum fyrir minn smekk, líka tapað of mörgum leikjum, en það eru jafntefli sem við hefðum getað breytt í sigra. Fótbolti snýst um úrslit, við erum ekki sáttir og  vitum að við ættum að gera betur,“ sagði Norðmaðurinn enn fremur á fundinum en mótherji hans annað kvöld er José Mourinho, sem vék úr starfi hjá United fyrir ári.

„Þessir tveir leikir á næstu dögum eru frábært tækifæri til að sýna okkur og sanna. Við höfum náð góðum úrslitum gegn sterkum liðum og erum með áætlun fyrir leikinn annað kvöld,“ sagði Solskjær um verkefnin sem bíða næstu daga.

mbl.is