Klopp sagðist ekki nógu hugrakkur

Jürgen Klopp var kampakátur með þá leikmenn sem komu inn …
Jürgen Klopp var kampakátur með þá leikmenn sem komu inn í liðið í kvöld. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, kom mörgum á óvart í liðsuppstillingu sinni fyrir 5:2 sigur liðsins á Everton í 15. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Klopp gerði fimm breytingar á liði sínu og tók þá Mohamed Salah, Roberto Firmino, Jordan Henderson og Alex-Oxlade Chamberlain út úr liðinu ásamt óumflýjanlegri breytingu á markvarðarstöðunni þar sem Alisson Becker fékk rautt spjald í síðustu umferð.

Eftir leik sagði Klopp að hann þyrfti að bera virðingu fyrir því sem leikmenn hans gera á æfingum. „Ég tala mikið um gæði hópsins. Við þurfum að sýna þau,“ sagði Klopp sem var afar ánægður með þá leikmenn sem komu inn í liðið sem hafi spilað afar vel á köflum en virkað eilítið ryðgað varnarlega. 

„Naby Keita er eini leikmaðurinn sem spilaði ekki sem er í framúrskarandi formi. Ég gerði fimm breytingar en var ekki nógu hugrakkur til þess að gera sex breytingar. Það var eina vandamálið. Ég er mjög ánægður með þá. Ég hafði aldrei efasemdir. Strákarnir þurfa að grípa tækifærið þegar þeir fá það,“ var haft eftir Klopp á BBC.

„Þetta var fyrsti leikurinn á erfiðu leikjaplani. Við þurftum að gera breytingar og við munum gera breytingar,“ sagði Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert