Mourinho segir United varnarsinnað

José Mourinho gengur svekktur af velli í kvöld.
José Mourinho gengur svekktur af velli í kvöld. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, var að vonum svekktur eftir 1:2-tap gegn Manchester United á sínum gamla heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. United skoraði snemma í fyrri og seinni hálfleik, en þess á milli jafnaði Dele Alli metin undir lok fyrri hálfleiks. 

„Við byrjuðum seinni hálfleikinn á að fá á okkur mark sem við megum ekki fá á okkur. Við vorum sofandi og leyfðum Rashford að ráðast á okkur. Þeir byrjuðu betur í fyrri hálfleik og hefðu getað komist í 2:0, en svo tókum við yfir leikinn. Því miður byrjuðum við báða hálfleika illa.“

Portúgalinn benti svo á að bestu úrslit United á leiktíðinni hafi komið gegn bestu liðum deildarinnar. 

„Úrslitin hjá United á móti bestu liðunum á tímabilinu hafa verið góð; Chelsea, Liverpool og Leicester. Það er auðveldara fyrir þá að spila á móti þeim liðum, þar sem þeir spila varnarsinnað. Þeim finnst gott að spila á móti liði sem heldur boltanum betur,“ sagði Mourinho. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert