Orð mín hér munu engu breyta

Marco Silva, knattspyrnustjóri Everton.
Marco Silva, knattspyrnustjóri Everton. AFP

„Þetta var erfitt kvöld fyrir okkur. Við vissum fyrir leikinn að hann yrði erfiður. Við fengum á okkur tvö snemmbúin mörk og það gerði okkur mjög erfitt fyrir. Við vissum hvað þeir myndu reyna að gera. Við vissum þetta allt en við getum ekki fengið svona mörk eins og við fengum á okkur í kvöld. Ekki á þessu stigi fótboltans,“ sagði Marco Silva, knattspyrnustjóri Everton sem eftir 5:2 tap gegn Liverpool í kvöld er nú í fallsæti eftir 15 umferðir í ensku úrvalsdeildinni með 14 stig, stigi minna en Southampton sem vann Watford í kvöld.

„Það voru 1-2 varnarmenn vel staðsettir en Origi skoraði. Þetta er ekki hægt. Við þurfum að elta þessa menn. Þetta er ekki rökrétt og við lögðum ekki upp með þetta,“ var haft eftir Silva á vef BBC.

Inntur eftir viðbrögðum við því að vera í fallsæti sagði Silva:

„Það er erfitt að taka því að vera í fallsæti. En ef þú ert þar þá ertu að gera mistök. Ég ætla ekki að tala um baráttuandann í mínum leikmönnum. Andstæðingar okkur voru hugrakkari en við í kvöld,“ sagði Silva.

Spurður hvort hann verði í stjórastöðu Everton í næstu viku sagði Silva:

„Ég er ekki rétti maðurinn til þess að svara því. Ég fæ sömu spurningu eftir hvern einasta leik. Orð mín hér munu engu breyta,“ sagði Silva.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert