Stjóri Gylfa rekinn í dag

Marco Silva hefur væntanlega stýrt Everton í síðasta skipti.
Marco Silva hefur væntanlega stýrt Everton í síðasta skipti. AFP

Marco Silva, knattspyrnustjóri Everton, verður rekinn í dag. Phil McNulty, knattspyrnusérfræðingur hjá BBC, greinir frá í morgun. David Moyes kemur til greina sem eftirmaður Silva, en hann stýrði liðinu í ellefu ár, áður en hann tók við Manchester United árið 2013. 

Silva slapp við reisupassann eftir slæmt tap gegn Norwich 23. nóvember síðastliðinn, en stjórn Everton fundar um framtíð Silva í dag. Everton tapaði illa fyrir Liverpool á Anfield í gærkvöldi, 2:5, og var það kornið sem fyllti mælinn hjá stjórnarmönnum félagsins. 

„Ég er ekki rétta manneskjan til að tala við um þessa stöðu. Þú ert að spyrja mig og ég er ekki með svarið,“ sagði Silva er hann var spurður út í framtíð sína eftir leikinn í gær. 

Everton hefur tapað átta af síðustu ellefu leikjum sínum og er afar ólíklegt að Silva verði við stjórn er Everton fær Chelsea í heimsókn á laugardaginn kemur. 

mbl.is