Tapaði rúmum 7 milljónum á einni nóttu

Andros Townsend glímdi við spilafíkn.
Andros Townsend glímdi við spilafíkn. AFP

Enski knattspyrnumaðurinn Andros Townsend tapaði 46.000 pundum, 7,3 milljónum króna, á veðmálasíðu á einni nóttu er hann var lánsmaður hjá Birmingham árið 2013. 

Townsend, sem á 13 leiki með enska A-landsliðinu, var úrskurðaður í fjögurra mánaða bann í kjölfarið, fyrir brot á veðmálareglum ensku deildakeppninnar. Atvikið átti sér stað er hann gisti á hóteli Birmingham-liðsins er liðið mætti Blackpool á útivelli.

„Ég drekk ekki, ég dópa ekki og ég hef ekki farið inn á næturklúbb á ævi minni, samt tókst mér að tapa 46.000 pundum með einum takka á símanum mínum. Ég þurfti ekki einu sinni að yfirgefa hótelherbergið mitt,“ skrifar Townsend fyrir Players' Tribune. 

„Ég fór margoft á lán og mér leiddist á hótelherbergi. Það var orðið þreytt að ná aldrei að kynnast liðsfélögunum almennilega. Ég sá auglýsingu í sjónvarpinu og prófaði. Ég tapaði og tapaði og áður en ég vissi af var ég orðinn algjörlega háður. 

Ég fór í meðferð við spilafíkn og það bjargaði ekki aðeins knattspyrnuferlinum, heldur bjargaði það mér líka sem manneskju,“ skrifaði Townsend. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert