Góðar fréttir fyrir Solskjær

Ole Gunnar Solskjær
Ole Gunnar Solskjær AFP

Manchester United og Manchester City leiða saman hesta sína í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á morgun klukkan 17:30. Franski sóknarmaðurinn Anthony Martial missti af leik United gegn Tottenham á miðvikudag, en hann hefur jafnað sig á meiðslum og verður klár í grannaslaginn. 

Paul Pogba er hins vegar enn fjarverandi vegna meiðsla, en hann hefur ekki leikið síðan í september. Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, er ánægður með að meiðslin hjá Martial hafi ekki verið alvarleg. 

„Við vonum að hann spili allavega eitthvað í leiknum. Ég er ekki viss um að hann geti verið í byrjunarliðinu. Pogba verður ekki með. Vonandi verður hann klár í slaginn sem fryst. Hann er byrjaður að æfa og vonandi sjáum við hann á vellinum fyrir áramót,“ sagði Solskjær á blaðamannafundi í dag. 

Grannaslagurinn í Manchester var ekki sá sami og hann er í dag, er Solskjær var leikmaður United. „Það leið langur tími þangað til ég spilaði í grannaslag. Auðvitað er Manchester City með mikið sterkara lið núna,“ sagði Norðmaðurinn. 

mbl.is