Sterk yfirlýsing frá Leicester og Rodgers

Brendan Rodgers heldur áfram hjá Leicester.
Brendan Rodgers heldur áfram hjá Leicester. AFP

Brendan Rodgers er ekki á förum frá Leicester City því hann hefur nú skrifað undir nýjan samning sem knattspyrnustjóri félagsins og hann gildir til sumarsins 2025, eða í fimm og hálft ár. Fyrri samningur hans átti að renna út sumarið 2022.

Rodgers, sem er 46 ára gamall Norður-Íri, hefur verið orðaður við Arsenal síðustu daga en nú er ljóst að hann ætlar að halda tryggð við Leicester, sem hefur blómstrað undir hans stjórn í vetur og er í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar, átta stigum á eftir Liverpool.

Rodgers tók við Leicester í febrúar en hann hafði þá stýrt Celtic í Skotlandi frá 2016 og unnið skoska meistaratitilinn og skoska bikarinn bæði tímabilin hjá félaginu. Áður stýrði hann Liverpool frá 2012 til 2015, Swansea frá 2010 til 2012 og þar á undan Reading og Watford en þjálfaraferilinn hóf hann hjá Chelsea þar sem hann stýrði unglingaliðum félagsins í fjögur ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert