Falla nú öll vötn til Lifrarpolls

Eftir höfðinu dansa limirnir. Jordan Henderson tekur við leiðbeiningum frá …
Eftir höfðinu dansa limirnir. Jordan Henderson tekur við leiðbeiningum frá Jürgen Klopp. AFP

Liverpool hefur verið á ofboðslegri siglingu í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á þessu almanaksári og aðeins lotið einu sinni í gras, á útivelli gegn Manchester City 3. janúar. Síðan hefur liðið ekki tapað í 32 leikjum sem er þriðji besti árangurinn í sögu úrvalsdeildarinnar. Af þessum leikjum hefur Rauði herinn unnið 27 leiki.

Haldi fram sem horfir verður næsta varða á vegferð Liverpool að skáka Chelsea sem lék 40 leiki án taps í úrvalsdeildinni frá 16. október 2004 til 6. nóvember 2005 undir stjórn nýs og fersks knattspyrnustjóra, José Mourinho að nafni. Það var Manchester United sem hafði þá blástakka loks undir.

Orrustan við hlaðborðið

Enn er býsna langt í metið sem Arsenal á en Skytturnar biðu ekki ósigur í úrvalsdeildinni í 49 leikjum, frá 7. maí 2003 til 24. október 2004 undir stjórn Arsènes Wengers. Aftur var það Manchester United sem stöðvaði sigurgönguna í víðfrægum leik sem kallaður hefur verið „orrustan við hlaðborðið“, en einu sinni sem oftar þegar þessi lið mættust á þessum árum sauð upp úr og í átökum sem brutust út í undirheimum Old Trafford eftir leik fékk sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri United, flatbökusneið í höfuðið með þeim afleiðingum að hann þurfti að hafa fataskipti fyrir fund með blaðamönnum. Lengi var á huldu hver fleygði sneiðinni en Spánverjinn Cesc Fàbregas, sem var á meðal varamanna Arsenal þennan dag, gekkst við glæpnum í sjónvarpsviðtali árið 2017 – þrettán árum síðar. Hann hefur þá líklega metið það svo að brotið væri fyrnt, auk þess sem hann var aðeins sautján ára á þessum tíma og ósakhæfur.

Af þessum upplýsingum má ráða að Jürgen Klopp hefur skipað sér á bekk með bestu sparkstjórum í sögu úrvalsdeildarinnar – og þarf þær raunar ekki til. Hvað sigurgöngur varðar hefur hann þegar skotið sir Alex og Pep Guardiola aftur fyrir sig; andar niður í hálsmálið á José Mourinho (sjáið þið ekki þann gjörning skyndilega fyrir ykkur í eiginlegri merkingu) og sér í skottið á Arsène Wenger við sjóndeildarhringinn.

Eitt á sá þýski þó eftir að gera sem sörinn gerði þrettán sinnum, Wenger og Mourinho þrisvar og Pep í tvígang – að vinna ensku úrvalsdeildina. Flestir sparkskýrendur, áhugamenn um knattspyrnu og jafnvel þeir sem þekkja ekki knött frá graskeri eru sammála um að þess verði ekki langt að bíða; árið 2020 verði ár Liverpool. Og þurfi menn rökstuðning nægir að nefna að aldrei hefur lið hleypt á slíkt sigurskeið, 29 leiki eða meira, án þess að verða meistari. Þarf frekari vitna við?

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »