Þetta er ekki Playstation

Jürgen Klopp ætlar sér að gera nauðsynlegar breytingar á byrjunarliði …
Jürgen Klopp ætlar sér að gera nauðsynlegar breytingar á byrjunarliði sínu í desember og janúar. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, ítrekar að hann ætli sér að halda áfram að hreyfa við byrjunarliði sínu í desembermánuði. Klopp gerði nokkrar stórar breytingar á byrjunarliði sínu fyrir nágrannaslaginn gegn Everton á Anfield á miðvikudaginn síðasta þar sem Liverpool fór með 5:2-sigur af hólmi.

Klopp setti þá Jordan Henderson, Roberto Firmino og Mohamed Salah alla á bekkinn og var talsvert gagnrýndur fyrir vikið. Liverpool vann hins vegar sannfærandi sigur en enska liðið spilar fjórtán leiki í desember og janúar og því ljóst að álagið er mikið á topplið ensku úrvalsdeildarinnar en Liverpool er með átta stiga forskot á toppi deildarinnar.

„Stuðningsmenn vilja alltaf sjá þá bestu spila og þeir gera kröfu á að maður stilli alltaf upp sterkasta byrjunarliðinu,“ sagði Klopp í samtali við blaðamenn. „Þetta er ekki Playstation eða tölvuleikurinn FIFA þar sem menn þurfa enga hvíld. Við verðum að hreyfa við liðinu svo að menn séu ferskir og það er nákvæmlega það sem við munum gera.“

„Við gerðum fimm breytingar fyrir leikinn gegn Everton og þær gengu upp. Við erum með sterkan og góðan hóp og ég treysti öllum leikmönnunum til þess að koma inn og standa sig. Það væri tilgangslaust að vera með leikmenn ef maður ætlaði sér ekki að nota þá og ég ætla mér að nota þá leikmenn sem eru til taks,“ bætti Þjóðverjinn við.

mbl.is