„Af hverju ætti ég að vilja fara?“

Xherdan Shaqiri átti mjög góðan leik í 5:2-sigri Liverpool gegn …
Xherdan Shaqiri átti mjög góðan leik í 5:2-sigri Liverpool gegn Everton í síðustu viku. AFP

Xherdan Shaqiri, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, segist ekki vera á förum frá félaginu. Shaqiri hefur verið orðaður við brottför frá Liverpool undanfarnar vikur en hann kom til félagsins frá Stoke sumarið 2018. Shaqiri hefur ekki átt fast sæti í liði Liverpool frá því hann kom enda mikil samkeppni um allar stöður hjá Evrópumeisturunum.

„Ég er mjög ánægður hjá Liverpool,“ sagði Shaqiri í samtali við The Athletic. „Það sést á spilamennsku minni hvað mér líður vel hérna. Ég er með langtímasamning sem gildir til ársins 2023 og ég ætla mér að virða þann samning. Vissulega hef ég gengið í gegnum ákveðna erfiðleika en ég hef líka verið óheppinn með meiðsli.“

„Ég er mjög spenntur fyrir því sem koma skal og ég er sannfærður um að það séu mjög bjartir tímar fram undan hjá Liverpool. Af hverju ætti ég að vilja fara frá Liverpool á þessum tímapunkti? Það er eitthvað sérstakt í gangi hérna og það er mikið sem ég vil enn þá afreka hér,“ bætti svissneski landsliðsmaðurinn við.

mbl.is