Níundi sigur Leicester í röð

Jamie Vardy skoraði tvö.
Jamie Vardy skoraði tvö. AFP

Leicester vann sinn níunda sigur í röð er liðið vann 4:1-sigur á grönnum sínum í Aston Villa á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. 

Jamie Vardy og Kelechi Iheanacho komu Leicester í 2:0, áður en Jack Grealish minnkaði muninn í 2:1 í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Jonny Evans kom Leicester aftur tveimur mörkum yfir í upphafi seinni hálfleiks, áður en Vardy skoraði sitt annað mark og tryggði Leicester góðan sigur. 

Leicester er í öðru sæti deildarinnar, átta stigum á eftir Liverpool og með sex stigum meira en Manchester City. 

Newcastle vann sterkan 2:1-sigur á Southampton á heimavelli. Danny Ings kom Southampton yfir snemma í seinni hálfleik, en Newcastle-menn gáfust ekki upp. Jonjo Shelvey jafnaði á 68. mínútu, áður en Federico Fernández skoraði sigurmarkið þremur mínútum fyrir leikslok. 

Þá vann Sheffield United 2:1-sigur á Norwich á útivelli í nýliðaeinvígi. Alexander Tettey kom Norwich yfir í fyrri hálfleik en Enda Stevens og George Baldock svöruðu fyrir Sheffield United snemma í seinni hálfleik. 

mbl.is