Rasistinn í Manchester handtekinn

Jesse Lingard varð fyrir kynþáttaníð í baráttunni um Manchester-borg í …
Jesse Lingard varð fyrir kynþáttaníð í baráttunni um Manchester-borg í gær. AFP

41 árs gamall karlmaður er nú í haldi lögreglunnar í Manchester, grunaður um kynþáttaníð í garð tveggja knattspyrnumanna Manchester United, en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Atvikið átti sér stað í leik Manchester City og United í gær en United vann leikinn, 2:1.

Stuðningsmaðurinn, sem var á bandi City í leiknum, var með kynþáttaníð í garð þeirra Jesses Lingards og Freds við hornfánann undir lok leiksins. Hann öskraði apahljóð í átt að leikmönnum, sem eru báðir dökkir á hörund.

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri United, fordæmdi atvikið harðlega eftir leik en það náðist á myndbandsupptöku. Mikið var rætt og ritað um atvikið á Twitter í gær og gæti stuðningsmaðurinn átt von á lífstíðarbanni frá fótbolta.

mbl.is