Ekki að púsla með 5. flokks stráka (myndskeið)

Liverpool er með átta stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu en liðið er með 46 stig í efsta sæti deildarinnar. Leicester kemur þar á eftir með 38 stig og Englandsmeistarar Manchester City eru í þriðja sætinu með 32 stig, 14 stigum minna en topplið Liverpool. Það er mikið að gera hjá Liverpool í desember og janúar og spilar liðið fjórtán leiki í öllum keppnum.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur því verið duglegur að hreyfa við liði sínu í fyrstu leikjum desembermánaðar en það virðist ekki hafa nein áhrif á spilamennsku liðsins. Liðið vann stórsigur gegn Everton í síðustu viku, 5:2, og þá lagði liðið Bournemouth á útivelli um helgina, 3:0.

„Þetta eru engir vitleysingar sem eru að koma inn hjá þeim,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen í Vellinum á Síminn Sport í gær. „Það er ekki eins og þeir séu að púsla með einhverja 5. flokks stráka. Þetta eru allt atvinnumenn í hæsta gæðaflokki og landsliðsmenn ef út í það er farið. Það er virðingavert að horfa á þetta lið spila fótbolta,“ bætti Eiður við en umræðuna má sjá hér fyrir ofan.

Liverpool er með átta stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.
Liverpool er með átta stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. AFP
mbl.is