Það er ekki reiknað með okkur

Brendan Rodgers hefur fagnað hverjum sigrinum á fætur öðrum síðustu …
Brendan Rodgers hefur fagnað hverjum sigrinum á fætur öðrum síðustu vikur. AFP

Brendan Rodgers knattspyrnustjóri Leicester City segir að almennt virðist ekki vera reiknað með því að lið hans eigi möguleika á enska meistaratitlinum og það sé ekkert óeðlilegt.

Leicester vann í gær sinn áttunda leik í röð í úrvalsdeildinni og er í öðru sæti með 38 stig, átta stigum á eftir Liverpool og sex stigum á undan meisturum Manchester City sem eru í þriðja sæti.

„Ég held að það hafi enginn reiknað með því að við yrðum nálægt efstu sætunum. Við æsum okkur ekki yfir því, þetta er hluti af leiknum. Eftir að Manchester United vann Manchester City snerist umræðan alfarið um það hverstu langt City væri á eftir Liverpool. Við virðum það og höldum áfram okkar vinnu,“ sagði Rodgers við Reuters.

„Manchester City og Liverpool eru tvö ótrúleg lið sem sýndu síðasta vetur hversu góð þau eru. Við reynum stöðugt að bæta okkur og minnka muninn. Okkar lið hefur verið í níunda  sæti tvö síðustu tímabil,“ sagði Rodgers en hans menn mæta Manchester City 21. desember og Liverpool fimm dögum síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert