Vonbrigðalið bítast um dýrmæt stig í kvöld

Freddie Ljungberg, bráðabirgðastjóri Arsenal, ræðir við framherjann Alexandre Lacazette.
Freddie Ljungberg, bráðabirgðastjóri Arsenal, ræðir við framherjann Alexandre Lacazette. AFP

Sextándu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu lýkur í kvöld með Lundúnaslag þegar West Ham tekur á móti Arsenal klukkan 20.

Bæði liðin hafa valdið vonbrigðum í vetur og eru í neðri hluta deildarinnar. Arsenal er dottið niður í 11. sætið með 19 stig en liðið hefur aðeins unnið fjóra leiki af fimmtán til þessa. Arsenal hefur ekki náð að vinna leik í öllum keppnum frá 24. október, gert fimm jafntefli og tapað fjórum leikjum á þessum tíma. Unai Emery var sagt upp störfum sem knattspyrnustjóra á dögunum og Freddie Ljungberg hefur stýrt því í tveimur leikjum, 2:2 jafntefli í Norwich og 1:2 ósigri gegn Brighton á heimavelli.

West Ham hefur líka gengið illa að undanförnu og aðeins unnið einn af síðustu sjö leikjum. Það var óvæntur útisigur gegn Chelsea, 1:0, en West Ham hefur á þessum slæma kafla sigið niður í 16. sæti deildarinnar með 16 stig.

Sigur myndi fleyta Arsenal upp í níunda sætið en West Ham færi alla vega upp í þrettánda sæti með því að hirða þrjú stig í kvöld.

mbl.is