Fær fullt traust eigenda og fjármuni til að styrkja liðið

Ole Gunnar Solskjær virðist vera búinn að festa sig betur …
Ole Gunnar Solskjær virðist vera búinn að festa sig betur í sessi. AFP

Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóri Manchester United hefur fengið fulla stuðningsyfirlýsingu frá eigendum félagsins í kjölfarið á sigrinum gegn Manchester City í úrvalsdeildinni á sunnudaginn, samkvæmt frétt Daily Mail í dag.

Þar er sagt að United ætli ekki að ræða við Mauricio Pochettino um að taka við liði United af Norðmanninum, staða Solskjærs sé örugg og eigendurnir séu sáttir við áform hans um uppbyggingu liðsins. Hann fái ennfremur fjármuni til að styrkja liðið og þar eru fyrst nefndir til sögunnar Saúl Niguez hjá Atlético Madrid og markaskorarinn ungi Erling Braut Haaland hjá Salzburg.

Leikmenn United fengu tveggja daga frí eftir sigurinn á City en eftir leikinn fóru þeir beint á flugvöllinn í Manchester og flugu til London þar sem þeirra árlega jólaveisla var haldin. Þeir mæta AZ Alkmaar í lokaumferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar á fimmtudaginn en bæði liðin eru þegar komin áfram í 32 liða úrslitin. United mætir síðan Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Everton í úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

mbl.is