Ferguson á hliðarlínunni á Old Trafford

Duncan Ferguson fagnar vel og innilega gegn Chelsea.
Duncan Ferguson fagnar vel og innilega gegn Chelsea. AFP

Manchester United fær Everton í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á sunnudaginn kemur. Duncan Ferguson, bráðabirgðastjóri Everton, verður á hliðarlínunni hjá liðinu á Old Trafford. 

Marco Silva var rekinn frá Everton í byrjun mánaðar og stýrði Ferguson bláa liðinu í Liverpool til 3:1-sigurs á Chelsea síðasta laugardag. Gylfi Þór Sigurðsson lék allan leikinn með Everton og stóð sig vel. 

Everton ræddi við Portúgalann Vítor Pereira eftir brotthvarf Silva, en Pereira hafnaði tilboði Everton, þar sem hann vildi í það minnsta vera eitt ár í viðbót í Kína, þar sem hann stýrir Shanghai SIPG. 

Everton ætlar að ræða við Carlo Ancelotti, en hann var rekinn frá Napoli í gærkvöldi og kemur sterklega til greina sem næsti stjóri Gylfa og félaga.

mbl.is