Fyrsti sigurinn reyndist dýrkeyptur

Freddie Ljungberg ræðir við framherjann Alexandre Lacazette sem er líkast …
Freddie Ljungberg ræðir við framherjann Alexandre Lacazette sem er líkast til heill heilsu. AFP

Freddie Ljungberg fagnaði fyrsta sigrinum sem bráðabirgðastjóri enska knattspyrnuliðsins Arsenal á mánudagskvöldið, 3:1 gegn West Ham, en hann verður í vandræðum með uppstillingar á liði sínu í næstu leikjum vegna meiðsla.

Arsenal mætir Standard Liege á útivelli í Evrópudeildinni annað kvöld og tekur á móti Englandsmeisturum Manchester City í úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

Hector Bellerín meiddist í upphitun fyrir leikinn gegn West Ham þegar hann stífnaði upp aftan í læri og fer ekki með til Belgíu. Ólíklegt er að hann verði klár gegn City.

Granit Xhaka fékk boltann af miklum krafti í höfuðið í leiknum gegn West Ham og mun ekki spila næstu tvo leikina í það minnsta af þeim sökum.

Kieran Tierney fór af velli í leiknum gegn West Ham og í ljós kom að hann hefði farið úr axlarlið.

Nicolas Pépé sem skoraði eitt mark gegn West Ham og lagði annað upp fékk högg á hnéð og spilar ekki í Belgíu. Óvíst er að hann verði tilbúinn gegn City.

Þá eru bæði Dani Ceballos og Rob Holding frá keppni í bili og hvorugur þeirra kemur til greina í þessum tveimur leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert