Á leið í læknisskoðun hjá Liverpool

Takumi Minamino er að ganga til liðs við Liverpool fyrir …
Takumi Minamino er að ganga til liðs við Liverpool fyrir 7,25 milljónir punda. AFP

Takumi Minamino er á leið í læknisskoðun hjá enska knattspyrnufélaginu Liverpool en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu í kvöld. Samkvæmt fréttum á Englandi hefur Liverpool virkjað 7,25 milljóna punda klásúlu í samningi japanska sóknarmannsins og mun hann því ganga til liðs við Liverpool þegar janúarglugginn verður opnaður, ef allt gengur að óskum.

Minamino leikur með Salzburg í Austurríki en Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, heillaðist af leikmanninum í viðureignum Liverpool og Salzburg í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Japaninn var á skotskónum í 4:3-sigri Liverpool á Anfield í byrjun október og þá átti hann góðan leik í Austurríki á dögunum þegar Liverpool vann 2:0-sigur.

Minamino er 24 ára gamall en hann hefur skorað fimm mörk í fjórtán leikjum í austurrísku 1. deildinni á þessari leiktíð. Þá skoraði hann tvö mörk og lagði upp önnur þrjú í sex leikjum í Meistaradeildinni á tímabilinu. Minamino á að baki 22 landsleiki fyrir Japan þar sem hann hefur skorað ellefu mörk.

mbl.is