Til Liverpool frá Salzburg fyrir smápeninga?

Takumi Minamino umkringdur af leikmönnum Liverpool.
Takumi Minamino umkringdur af leikmönnum Liverpool. AFP

Samkvæmt mörgum enskum fjölmiðlum í dag hefur Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool hug á að kaupa einn af andstæðingum sínum frá því á þriðjudagskvöldið þegar lið hans lagði Salzburg að velli, 2:0, í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Það er þó ekki hinn eftirsótti Norðmaður, Erling Braut Haaland, sem um ræðir, heldur félagi hans í framlínu austurrísku meistaranna, japanski sóknarmaðurinn Takumi Minamino.

Hann er 24 ára gamall og var vörn Liverpool erfiður í báðum leikjum liðanna í Meistaradeildinni, skoraði í 4:3 sigri Liverpool á Anfield og var óheppinn að koma ekki boltanum í netið eftir skemmtileg tilþrif í fyrri hálfleiknum í fyrrakvöld.

Minamino er sagður vera með klásúlu í sínum samningi um að hann sé falur fyrir aðeins 7,25 milljónir punda.

Hann hefur spilað með Salzburg frá árinu 2015 og skorað 41 mark í 129 deildaleikjum fyrir félagið og samtals 63 mörk í 192 mótsleikjum. Minamino kom til félagsins frá Cerezo Osaka í heimalandi sínu og hann hefur skorað 11 mörk í 22 landsleikjum fyrir Japan, sjö þeirra á þessu ári.

mbl.is