Hættir Guardiola eftir tímabilið?

Pep Guardiola kom til Manchester City árið 2016 og stjórnaði …
Pep Guardiola kom til Manchester City árið 2016 og stjórnaði áður Bayern München og Barcelona. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, er samningsbundinn félaginu til sumarsins 2021 en gæti horfið á braut strax að þessu tímabili loknu þar sem hann er með sérstaka klásúlu í sínum samningi.

Þetta fullyrðir í það minnsta enska blaðið Daily Mail í dag en þar er velt upp möguleikanum á því að Spánverjinn láti gott heita að þessu tímabili loknu sem er hans fjórða hjá félaginu sem hefur unnið enska meistaratitilinn tvö undanfarin ár.

Nú er City hins vegar fjórtán stigum á eftir Liverpool og möguleikar á meistaratitlinum virðast sáralitlir en liðið stefnir hins vegar áfram á að vinna Meistaradeildina í fyrsta skipti og er þar komið í sextán liða úrslit.

Samkvæmt Daily Mail eru forráðamenn City afar áhugasamir um að fá Mauricio Pochettino til að taka við liðinu þegar Guardiola hverfur á braut en Argentínumanninum var sagt upp hjá Tottenham í síðasta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert