Klopp með nýjan langtímasamning

Jürgen Klopp nýtur mikilla vinsælda í Liverpool.
Jürgen Klopp nýtur mikilla vinsælda í Liverpool. AFP

Jürgen Klopp er síður en svo á förum frá Liverpool á næstunni. Félagið tilkynnti rétt í þessu að hann hefði gert nýjan samning sem knattspyrnustjóri félagsins til hálfs fimmta árs, eða til sumarsins 2024.

Þar með stefnir allt í að Þjóðverjinn verði í það minnsta níu ár við stjórnvölinn hjá Liverpool en hann kom til félagsins í október árið 2015. Hann hefur aðeins verið hjá tveimur öðrum félögum síðustu þrjá áratugina en Klopp var leikmaður Mainz í Þýskalandi frá 1990 til 2001 og síðan knattspyrnustjóri frá 2001 til 2008. Þaðan fór hann til Borussia Dortmund og var þar í sjö ár, eða þar til hann tók við starfinu hjá Liverpool.

Velgengni Liverpool undir stjórn Þjóðverjans hefur verið mikil síðustu misserin. Félagið varð Evrópumeistari síðasta vor og missti afar naumlega af því að vinna sinn fyrsta meistaratitil frá árinu 1990 þegar það fékk 97 stig í úrvalsdeildinni og tapaði aðeins einum leik en réð ekki við Manchester City sem fékk einu stigi meira. Liverpool hefur frá því í maí 2018 aðeins tapað einu sinni í 55 leikjum í deildinni og er ósigrað í síðustu 33 leikjum sem er félagsmet.

Nú bendir flest til þess að þrjátíu ára bið Liverpool eftir meistaratitlinum sé senn á enda því liðið hefur haft mikla yfirburði í úrvalsdeildinni í vetur, er átta stigum á undan Leicester og fjórtán stigum á undan Manchester City og hefur unnið fimmtán af sextán leikjum sínum, ásamt því að vera komið í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar.

mbl.is