Með sína menn í fjögur þúsund leikjum í röð

Mason Greenwood skorar fyrir Manchester United gegn AZ í Evrópudeildinni …
Mason Greenwood skorar fyrir Manchester United gegn AZ í Evrópudeildinni í gærkvöld. Hann var 7 ára gamall þegar þeir Solskjær hittust fyrst hjá félaginu. AFP

Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóri Manchester United staðfesti í dag að félagið myndi í 4.000. leiknum í röð tefla fram uppöldum leikmanni eða leikmönnum í sínum hópi þegar það tekur á móti Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Everton í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

Ljóst er að Marcus Rashford og Mason Greenwood verða í hópnum og tryggja það. „Ég er ekki með nógu stóran hóp nema ég noti líka leikmenn úr unglingaliðinu og við erum stoltir af því. Þetta er okkar DNA, þetta félag er byggt í kringum það að vera með okkar eigin uppöldu stráka og þá sem hafa komið í gegnum unglingaliðin. Við erum stoltir af því,“ sagði Solskjær á fréttamannafundi.

„Mason er gott dæmi um þetta. Ég man vel eftir því þegar ég hitti hann í fyrsta skipti því sonur minn var þá átta ára gamall að æfa með sínum flokki hjá félaginu. Mason var þá sjö ára. Hann var sérstaklega góður og ég tók mynd af honum. Nú er hann hérna. Svona vinnum við,“ sagði Solskjær.

mbl.is