Missa einn þann besta í sex vikur

Nathan Aké í leiknum gegn Liverpool um síðustu helgi.
Nathan Aké í leiknum gegn Liverpool um síðustu helgi. AFP

Hollendingurinn Nathan Aké, sem margir telja einn af bestu miðvörðum ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, leikur ekki með Bournemouth næstu sex vikurnar.

Eddie Howe knattspyrnustjóri Bournemouth upplýsti um þetta á fréttamannafundi í dag en Aké fór af velli snemma leiks gegn Liverpool um síðustu helgi þegar hann tognaði aftan í læri.

Þetta er mikið áfall fyrir Bournemouth sem hefur gengið illa undanfarnar vikur og sigið niður töfluna eftir ágæta byrjun í deildinni í haust.

Aké hefur verið talsvert orðaður við stóru liðin í deildinni og talið er að bæði Chelsea og Manchester City hafi mikinn áhuga á að fá hann í sínar raðir. Aké, sem er 24 ára og hefur leikið 13 landsleiki fyrir Holland, var í röðum Chelsea í sex ár en fékk aðeins tækifæri í sjö leikjum í úrvalsdeildinni og var lánaður til Bournemouth árið 2016 og gekk alfarið til liðs við félagið ári síðar.

mbl.is